Um Landsteymið

Hlutverk

Landsteymið byggir á grunni farsældarlaga og þeirri sýn að kerfin eigi að sameinast um að barn fái þann stuðning sem þarf hverju sinni. Hvatt skal til og veittur stuðningur til þess að mál barns sé unnið á grundvelli þeirra laga og þjónusta sé samþætt þvert á kerfi. 

Landsteymið getur aðstoðað skólasamfélagið með ráðgjöf og stuðningi, þjálfað starfsfólk, styrkt skólann og gert starfsfólkið betur í stakk búið til þess að takast á við sambærileg verkefni. Landsteymið getur auk þess staðið að aukinni fræðslu til foreldra, m.a. í samvinnu við samtökin Heimili og skóla. 

Farsælt barn

  • Landsteymið byggir á grunni farsældarlaga og þeirri sýn að kerfin eigi að sameinast um að börn fái þann stuðning sem þarf hverju sinni.
  • Landsteymið er mannað af sérfræðingum á sviði hegðunar og líðanar barna sem hafa mikla reynslu af því að starfa á lausnamiðaðan hátt með börnum, foreldrum og starfsfólki skóla.
  • Landsteymið mun eftir atvikum leitast við að koma málum í réttan farveg í nærumhverfi barns, leita lausna innan þeirra þjónustukerfa sem sinna börnum eða ganga sjálft inn í mál barnsins með stuðningi og ráðgjöf.

Landsteymið mun:

  • Vinna á skapandi og lausnamiðaðan hátt. Gera það sem þarf til að styðja við barn og umhverfi þess óháð því innan hvaða kerfa það fellur.
  • Aðstoða skólasamfélagið með ráðgjöf og stuðningi. Þjálfa starfsfólk - skilja eftir sterkari skóla sem eru betur til þess fallnir að takast á við sambærileg verkefni.
  • Veita fræðslu og ráðgjöf til foreldra. Styðja við börn og foreldra í erfiðum aðstæðum.
  • Starfa á grundvelli barnvænnar, áfallamiðaðrar og skynvænnar nálgunar þar sem barnið og rödd þess verður í forgrunni.

Innleiðing farsældarlaga

Ef innleiðing farsældarlaga er í góðum farvegi munu sérfræðingar Landsteymisins taka sæti í svokölluðu stuðningsteymi um þjónustu við barn og m.a. vinna með teyminu að gerð stuðningsáætlunar ásamt því að veita ráðgjöf og stuðning.

Ef innleiðing farsældarlaga er ekki hafin eða stutt á veg komin munu sérfræðingar Landsteymisins skipuleggja og laga stuðning sinn að hverju máli fyrir sig samhliða því að stigið verður inn með stuðning við innleiðingu farsældarlaganna.

Önnur markmið Landsteymisins

  • Yfirsýn yfir mál sem brenna á skólum og sveitarfélögum
  • Hvaða úrræði eru í boði og hvað úrræði þurfa að vera til staðar
  • Hvar vandamál liggja, flöskuhálsar tefja og hvaða farvegi vantar
  • Búa til tengingar á milli kerfa, skýra ferli og byggja upp þekkingu

Starfsfólk og ráðgjafar

Ráðgjafar Landsteymis eru fagmenntaðir og búa yfir mikilli reynslu þegar kemur að málefnum barna með stuðningsþarfir.

Bóas Valdórsson útskrifaðist sem sálfræðingur árið 2007 og hefur síðan lokið kennaranámi sem og sérfræðiréttindum í klínískri barnasálfræði. Bóas hefur m.a. starfað innan heilbrigðis- og skólakerfisins og sinnt þar bæði kennslu, klínískri vinnu og ráðgjöf. Bóas sinnir ráðgjöf í málum sem unnin eru á vegum Landsteymis.

Lára Guðrún Magnúsdóttir útskrifðist sem þroskaþjálfi vorið 1995 og lauk háskólagráðu í almennum málvísindum með áherslu á lestrarvanda, málþroska og fjöltyngi frá Gautaborgarháskóla árið 2005. Lára hefur starfað inni á heimilum, í dagvistunum, í leikskóla og lengst af innan grunnskólans bæði hér á landi sem og í Svíþjóð. Hún er móðir fjögurra barna sem sum hver glíma við meiri áskoranir og hefur því innsýn í hvers það krefst að fylgja því eftir að þeirra þörfum sé mætt.

Sigrún Garcia Thorarensen hefur unnið við stjórnun í grunnskóla auk þess að hafa áður starfað sem náms- og starfsráðgjafi. Hún er með MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf og kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskólum.

Sigurður Hólm Gunnarsson er iðjuþjálfi og sáttamiðlari. Sigurður hefur lengi starfað í málaflokki barna. Hann var forstöðumaður á Skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík frá 2010 til 2022. Heimilið var á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og var fyrir 13-18 ára ungmenni sem þurftu tímabundið að búa utan heimilis af ýmsum ástæðum.