Líðan nemenda

Til nemenda frá Grindavík - líðan og upplifun í óvissu

Eftirfarandi texti er settur saman í ljósi þeirra miklu áskorana sem íbúar Grindavíkur standa frammi fyrir um þessar mundir. Ljóst er að aðstæður eru mjög krefjandi og það er erfitt fyrir aðra að setja sig í þau spor sem íbúar Grindavíkur standa frammi fyrir þessa dagana. Eftirfarandi ráð eru sett fram með þeim fyrirvara að aðstæður fólks eru ólíkar og leiðir fólks til að takast á við aðstæður af þessu tagi eru ólíkar. Engin ein leið er betri en önnur en á sama tíma er mikilvægt að hlúa að börnum og ungmennum þegar aðstæður af þessu tagi eiga sér stað.

Hér að neðan eru nokkrar hugleiðingar í tengslum við skólagöngu barna og ungmenna á óvissu tímum sem hægt er að hafa til hliðsjónar:

  • Reynslan úr COVID hefur kennt okkur að mikilvægt sé að reyna að stuðla að sem mestri rútínu í lífi barna og ungmenna þegar skyndilegir samfélagslegir erfiðleikar eiga sér stað. Þess vegna er mikilvægt að hvetja börn og ungmenni til að vera í góðum tengslum við skólann sinn og skólafélaga. Stunda námið eftir því sem hægt er og eiga í samskiptum og hitta jafnaldra þegar færi gefst.
  • Í skólum er hægt að sækja ýmiskonar stuðning hjá kennurum, náms- og starfsráðgjöfum, skólasálfræðingum og hjúkrunarfræðingum eftir því sem við á. Hægt er að leita til 1717 eða hafa samband við www.landsteymi.is til að fá ráðgjöf í tengslum við skólamál. Á heilsugæslustöðvum er líka hægt að fá ráðgjöf frá hjúkrunarfræðingum og læknum ef þörf er á.
  • Aðstæður nemenda eru ólíkar bæði hvað varðar heimilisaðstæður og stöðu þeirra í námi. Æskilegt er að skólar komi sem best á móts við nemendur og þær ólíku áskoranir sem þeir standa frammi fyrir. Skólastjórar og starfsmenn skóla eru vel meðvitaðir um þetta og vilja bregðast við í samráði við foreldra og nemendur.
  • Þar sem aðstæður í dag einkennast af óvissu í einhvern tíma þá er bæði ráðlagt að huga að bráðabirgðarlausnum og fara að huga að langtímamöguleikum varðandi ýmsa hluti í daglegu lífi. Dæmi um þetta er að gera plan um hvernig nemandi getur klárað námið sitt á þessari önn og byrja fljótlega að huga að möguleikum og útfærslum í tengslum við nám á næstu önn. Huga að möguleikum varðandi tómstundir, samveru með jafnöldrum o.s.frv.
  • Það er eðlilegt að upplifa fjölbreyttar tilfinningar þegar mikil óvissa er fyrir hendi því það er engin uppskrift að því hvað séu eðlileg viðbrögð. Þegar mikið er í húfi er að mörgu að huga og hugsanir og viðbrögð fólks eru í samræmi við það. Hjálplegt getur verið að reyna að hlusta á hvort annað og sýna hvert öðru skilning óháð því hvort við séum sammála eða upplifum hlutina ólíkt. Það eru allir að gera sitt besta og reyna að ná utan um hlutina á sinn hátt. Sýnum hvort öðru því mildi, hlýju og stuðning.

Mikilvægt er að huga vel að grunnatriðum í daglegri rútínu á óvissutímum:

  • Góður svefn er mikilvægur. Miklar áskoranir krefjast mikillar orku og því er nauðsynlegt að ná að skapa rými fyrir hvíld og ró inn á milli ef þess er kostur.
  • Samvera með sínum nánustu er mikilvæg. Það reynist mörgum hjálplegt að geta talað um hlutina við vini sína eða sína nánustu. Stundum er líka mikilvægt að tala um eitthvað allt annað, dreifa huganum og gefa sér smá frí frá þeim spurningum og vangaveltum sem við stöndum frammi fyrir.
  • Hverju hef ég stjórn á?  Það getur verið hjálplegt að reyna að fókusa á þau atriði sem við höfum stjórn á í okkar nær umhverfi. Mikil óvissa veldur gjarnan óöryggi og vanlíðan og því getur verið hjálplegt að reyna að ná utan um þau atriði sem við höfum stjórn á og draga úr óvissunni þar. Sumum atriðum getum við stjórnað mikið en varðandi önnur atriði getum við bara haft áhrif á að hluta. Ef það eru atriði sem við getum alls ekki stjórnað eða haft áhrif á þá getum verið hjálplegt að reyna að setja þau til hliðar og beina athygli okkar og orku að þeim atriðum sem við getum unnið með.

Hér má finna umfjöllun um það hvernig viðbrögð og upplifun getur verið ólík milli einstaklinga og aldurshópa.

Hér má finna umfjöllun um áfallastreituviðbrögð þegar ógn steðjar að.

Hér má finna myndband frá Rauða krossinum um sálræn eftirköst áfalls.

Hér má finna upplýsingar frá Landspítalanum um áföll, áfallastreitu og áfallahjálp.

Hér er upplýsingavefur fyrir Grindvíkinga þar sem hægt er að fá upplýsingar um ýmsa þjónustu sem býðst Grindvíkingum.

Fræðsluefni og hlekkir: